LornaLAB og Nýlistasafnið í samvinnu við Háskóla Íslands, kynna gjörning Olgu Kisselevu, Valdabarátta (Power Struggle).

Olga Kisseleva nálgast verk sín á svipaðan hátt og vísindamaður. Hún spyr spurninga um félagsleg málefni, setur fram kenningar, gerir tilraunir og kemur með tillögur að lausnum. Listamaðurinn leitar inn á svið stærðfræði, erfðalíffræði, jarðeðlisfræði, jafnt sem stjórnmálafræði og félagsvísinda, og stýrir rannsóknarverkefnum.

Gjörninga- og miðlaverkið Valdabarátta var gert fyrir sýninguna Red Cavalry: Creation and Power in Soviet Russia sem var sett upp í Casa Encendia (Madrid, 2011) og í Tate Modern (London, 2010). Á sýningunni voru, meðal annarra, verk eftir ljóðskáldin og rithöfundana Boris Pasternek, Vladimir Mayakovsky, Mikhail Bulgakov og Daniil Kharms; myndlistarmennina Wassily Kandinsky, Marc Chagall, Kazimir Malevich, Alexandr Rodchenko og Vladimir Tatlin; kvikmyndagerðarmennina Dziga Vertov og Sergei Eisenstein. Titill sýningarinnar vísað til samnefnds meistaraverks, þekkts málverks eftir Kazimir Malevich, sem var hluti af sýningunni.

Valdabarátta er skopstæling á “samkeppni” í samböndum á hvaða sviði lífsins sem er og sjónræn framsetning á eyðileggjandi eiginleikum hennar. Verkið byggir á nýjustu útgáfunni af þremur vírusvarnarforritum, sem eru ræst samtímis. Um leið hefst “valdabarátta”, þar sem forritin reyna að útrýma hvert öðru. Í lokin stendur eitt þeirra uppi sem sigurvegari, sem hefur þurrkað keppinauta sína úr tölvunni. Ferli baráttunnar er varpað á skjá þannig að áhorfendur geta veðjað á uppáhalds vírusvarnarforritið sitt.

Gjörningurinn verður fluttur í Nýlistasafninu við Skúlagötu 28 2 maí 2013, kl. 20

Gjörningur eftir Olgu Kisselevu. Þátttakendur : Silja Bára Ómarsdóttir,   Stefán Pálsson, Sólveig Ólafsdóttir og Gylfi Magnússon.
Hugbúnaður : Oleg Kiselev, texti : Maxime Petiot

Sýningarstjóri: Margrét Elísabet Ólafsdóttir. 

Aðstoðarsýningarstjórar : Edda Halldórsdóttir, Heiða Rós Níelsdóttir, Snorri  Freyr Snorrason og Oddný Björk Daníelsdóttir.

http://www.kisseleva.org

 

Gestur LornaLAB í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi, sunnudaginn 6 apríl er Smári McCarthy, hönnuður, forritari og áhugamaður um stafrænt frelsi. Hann fjallar um skörun frelsis og öryggis í netveruleikanum.

Hverjir vita hvað fólk gerir í tölvunum sínum og af hverju vilja þeir vita það? Framtíð netsins er örugglega óráðin en almenningur, ríkisstjórnir, aktívistar og listamenn geta (ennþá) togað í taumana. En hvar eru taumarnir og hvernig er hægt að hafa áhrif? Þessar spurningar verða teknar fyrir í opinni samræðu við þátttakendur.

Viðburðurinn er liður í dagskrá Sequences VI og er öllum opinn að kostnaðarlausu. www.sequences.is

Lornalab kynnir Raspberry Pi smátölvuna laugardaginn 23. febrúar milli kl 13:00-15:00 í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsinu.  Raspberry Pi fæst að öllu jöfnu með sérsniðinni linux uppsetningu en fleiri stýrikerfi hafa verið sniðin fyrir hana, hún er ódýr og öflug og hefur því kveikt áhuga margra í nýsköpunar-, grúsk- og þróunarsamvinnugeirum.

Lornalab hefur fregnir af því að rétt undir 1000 Raspberry Pi séu í notkun á Íslandi.  Allir eigendur RPi sem og aðrir áhugasamir eru hvattir til að mæta, hlýða á kynningar, drekka kaffi og spjalla.