Hljóð og mynd

LornaLab smiðja desembermánaðar fer fram í Hafnarhúsinu, laugardaginn 8. desember kl. 13-16. Hún verður blandaður pakki þar sem Ríkharður H. Friðriksson raftónskáld og Margrét Elísabet Ólafsdóttir, fagurfræðingur og sérfræðingur í stafrænum listum munu kynna vinnu sína og viðhorf.

Ríkharður mun fjalla um verk sín og vinnu sína við sköpun og ummyndun nýrra og gamalla hljóða. Fyrirlesturinn verður ríkulega skreyttur með tóndæmum úr fimm rása víðóma hljóðkerfi.

Margrét mun fjalla um sögu stafrænna lista á undanförnum áratugum og sérstöðu þeirra gagnvart eldri listformum. Hún mun draga fram helstu stefnur og strauma og sýna hvernig tæknin og listsköpun hafa spilað saman og mótað hvort annað.Ríkharður H. Friðriksson gerir raftónlist sem er annað hvort hrein víðóma afspilunartónlist þar sem unnið er með náttúruhljóð og hreyfingu þeirra í rými, eða hann iðkar spuna með rafgítar og vinnur hljóð hans áfram með tölvutækni. Í seinni geiranum kemur hann annað hvort fram einn eða með sveitinni Icelandic Sound Company. Ríkharður kennir tónsmíðar, raftónlist og tónlistarsögu við Listaháskóla Íslands, Tónlistarskóla Kópavogs og Tónlistarskólann í Reykjavík.

Margrét Elísabet Ólafsdóttir er fagurfræðingur að mennt og er að leggja lokahönd á doktorsritgerð í listfræði sem byggir á rannsóknum á íslenskri miðlalist. Hún hefur á kennt við Listaháskóla Íslands og Háskóla Íslands. Hún hefur einnig starfað sem myndlistargagnrýnandi og sýningarstjórnandi. Margrét er stofnmeðlimur Lorna, félags áhugamanna um rafræna list, auk þess að að hafa komið að skipulagi stafrænna listahátíða eins og Pikslaverk og Raflost.

Margrét og Ríkharður eru bæði stofnmeðlimir LornaLab.

LornaLab var stofnað sumarið 2010 sem umræðugrundvöllur fyrir miðlun tæknilegrar þekkingar, en nánari upplýsingar um félagsskapinn má finna hér. www. lornalab.is

Comments are closed.